STJÖRNURNAR TALA
Leikarar og leikstjóri tjá sig um myndina
Af HBO news

 

Bandaríska sjónvarpstöðin HBO sýndi 15 mínútna þátt sem heitir „Gerð myndarinnar Harry Potter og leyniklefinn.“ Í þættinum komu fram nýjar úrklippur úr myndinni og viðtöl við aðstandendur hennar. Vefmeistari einnar af bestu aðdáendasíðum Ruperts Grint, Wizard Nights, 15 ára stelpa sem heitir Carrigan og býr í Atlanta, Bandaríkjunum, skrifaði niður það sem leikararnir sögðu. Vefmeistari ykkar, Anna Heiða Pálsdóttir, þýddi það lauslega fyrir íslenska aðdáendur.

Daniel Radcliffe: Myndin er mjög ólík þeirri fyrstu. Það er meira af öllu í þessari.

Emma Watson: Hér eru fleiri tækifæri fyrir líflegar senur.

Rupert Grint: Miklu meira af ævintýrum, jahá.

Robbie Coltrane: Ég get ekki beðið eftir því að sjá köngulærnar.

Chris Columbus: Við höfum haldið áfram að vera trú bókunum.

Daniel Radcliffe: Ég held að hún sé fyndnari en fyrsta myndin.

Rupert Grint: Nú koma nýjar persónur til sögunnar.

Kenneth Branagh: Hvar sem Gilderoy birtist eða skiptir sér af, verður einhvers konar uppistand.

Tom Felton: Draco er kominn aftur og hann er mörgum sinnum verri en í fyrstu myndinni.

Daniel Radcliffe: Þetta er bara svo skemmtilegt.

Chris Columbus: Fyrsta myndin var frumsýnd á föstudegi og á mánudeginum vorum við farin að taka upp Leyniklefann. Þannig er það, maður er bara kominn í vinnuna aftur, með fólkinu sem maður þekkir..

Daniel Radcliffe: Það var svo skemmtilegt að hitta alla aftur. Mér leið vel að sitja aftur fyrir framan tökuvélarnar og vinna að myndinni.

Chris Columbus: Fyrsta myndin snerist um það að útskýra fyrir áhorfendum hvað var að gerast og hvernig lífi strákurinn hafði lifað. Nú þegar það er búið getur önnur myndin skellt sér beint í atburðarásina. Þetta gerði aðra myndina meira spennandi að fást við.

Daniel Radcliffe: Harry er búinn að finna sér heimili í Hogwartskóla. Hann tilheyrir Hogwart og þegar hann snýr þangað aftur uppgötvar hann að skólinn er í mikilli hættu.

Chris Columbus: Það voru fjórir prófessorar sem stofnuðu Hogwartskóla. Einn þeirra var Salazar Slytherin. Slytherin lét gera falið herbergi í skólanum sem er kallað Leyniklefinn til þess að hann gæti lagt stund á svartagaldur í friði. Sá eini sem getur opnað Leyniklefann er hinn sanni erfingi Slytherin og í myndinni reynum við að komast af því hver hann er.

David Heyman: Okkar takmark með myndunum er að láta þær fylgja anda bókanna, halda okkur við söguna og persónurnar.

Chris Columbus: Það var líka meira spennandi að gerra myrkari kvikmynd, hraðari ævintýramynd, sem mér finnst skemmtilegast. Hún höfðar meira til 10 ára stráksins innan í mér. Öfugt við endurgerða mynd eða hreina framhaldsmynd, er þetta sjálfstæð saga.

Daniel Radcliffe: Persóna Harrys er töluvert breytt frá því í fyrstu myndinni. Harry er sterkari persóna. Í fyrstu myndinni vill Harry stundum hopa frá því sem er að gerast í kringum hann en í annarri myndinni tekur hann virkan þátt í öllu.

Emma Watson: Hermione er farin að slappa svolítið meira af. Hún er ekki eins niðursokkin í bækur og heimavinnu og er rólegri á allan hátt.

Rupert Grint: Ron hefur líka breyst vegna þess að nú er systir hans komin í skólann og hann verður að vera stóribróðir og gæta hennar. Og í þessari mynd er ég kominn með uglu, Errol. Hann er virkilega, virkilega heimskur og klunnalegur.

Chris Columbus: Það sem okkur langaði að sýna í þessari mynd er að krakkarnir eru að verða stálpaðir. Þetta er annað árið í Hogwartskóla fyrir þessi þrjú og málin eru að verða flóknari. Sambönd eru ekki eins auðskiljanleg og þau voru áður.

Daniel Radcliffe: Rupert er ótrúlega fyndinn og við erum búnir að skemmta okkur hrikalega vel vegna þess að við vorum saman í bílnum fljúgandi í næstum því mánuð.

Rupert Grint: Þeim tekst nefnilega ekki að komast í gegn á brautarstöðinni og missa af lestinni til Hogwartskóla, svo þeir verða að fara í skólann á bíl sem flýgur.

Daniel Radcliffe: Og svo kemur í ljós að það var alls ekki góð hugmynd vegna þess að þeir enda á því að fljúga beint á rosalega grimmt tré.

Rupert Grint: Ó, já, þetta var hrikalega skemmtilegt.

Daniel Radcliffe: Þetta var rétt þegar tökur voru að byrja, minnir mig. Ég, Rupert og Emma, og sumir af hinum krökkunum, við höfum eflt mikið tengslin á milli okkar.

Emma Watson: Okkur kemur mjög, mjög vel saman.

Tom Felton: Við erum ekki óvinir í alvörunni. Okkur þykir virkilega vænt um hvert annað.

Daniel Radcliffe: Okkur Tom kemur ofboðslega vel saman í raunveruleikanum. Í myndinni hata Harry og Draco hvor annan.

Tom Felton: Draco Malfoy er svolítið klár. Hann verður klárari og klárari með árunum vegna þess að honum tekst að hugsa upp sífellt meiri illvirki.

Chris Columbus: Gilderoy Lockhart er mjög hégómagjarn og sjálfselskur rithöfundur. Hann þykist vera hógvær og hann þykist vera hugrakkur og sterkur, og hann þykist vera lítillát manneskja, en í raun er hann ekkert af þessu. Hann er falskur út í gegn.

Kenneth Branagh: Ef eitthvað væri til í því sem hann segir, væri hann búinn að granda fleiri galdramönnum og skrímslum og hryllilegum skepnum en nokkur annar galdramaður í manna minnum.

Emma Watson: Hermione er óhemju hrifin af Lockhart.

Kenneth Branagh: Hann er óneitanlega myndarlegasti kennarinn í sjálfsvarnarlist gegn myrkum öflum í Hogwartskóla þetta skólaárið.

Daniel Radcliffe: Strákarnir hata hann. Þeim líður illa að horfa upp á þetta mont. Manni verður illt.

Kenneth Branagh: Harry og Ron fer að gruna eitthvað þegar honum tekst ekki að hafa stjórn á hóp af smáálfum frá Cornwall sem hann kom með inn í kennslustofuna. Það er sko ekki mikið merki um visku hans.

Daniel Radcliffe: Lucious Malfoy, hann er alger óþokki.

Jason Isaacs (sem leikur Lucius): Nú, Lucius er mjög ill persóna. Hann er einstaklega óviðkunnanlegur maður. Sá allra hrokafyllsti og miskunnarlausasti. Hann svífst einskis.

Chris Columbus: Hann myndast svo vel. Og hann myndast svo vel sem illmenni. Hann lýsir af illsku á hvíta tjaldinu.

Jason Isaacs: Það skemmtilegasta fyrir mig var að vera eins afkáralegur og mögulegt er og samt virðast raunverulegur. Þetta er ekki auðvelt í hlutverki Lucius. Hann er ekki efstur á vinsældalistanum hjá fólki.

Chris Columbus: Eitt af því góða sem fyrsta myndin leiddi af sér var að við gátum notið þess að slappa af og hafa minni áhyggjur af því sem við vorum að gera og njóta þess. Þannig að þessi mynd er fyndnari og það er meiri leikur í henni, við skemmtum okkur svo vel, bæði ég og krakkarnir.

Rupert Grint: Malfoy hafði verið hrikalega leiðinlegur við Hermione og Ron reyndi að verja hana og fór með galdraþulu en hún snerist upp á hann sjálfan og hann byrjaði að hósta upp sniglum. Þeir voru samt góðir á bragðið.

David Heyman (framleiðandi myndarinnar): Þetta er stórkostlegur heimur fyrir fólk að upplifa. Sérstaklega fyrir tólf ára krakka.

Daniel Radcliffe: Mér finnst ég vera svo heppinn. Hvað ætli það séu margir krakkar í heiminum sem vildu borga milljónir fyrir að gera það sem ég er að gera? Ég myndi engan veginn kjósa annað hlutskipti.

David Heyman: Það ríkti svo gott andrúmsloft á meðan á tökum fyrstu myndarinnar stóð og við vildum halda áfram í sama takti.

Chris Columbus: Það verður svo gott samband á milli allra sem standa að myndinni og tengslin verða næstum eins og fjölskyldutengsl og ég vildi styrkja þau tengsl í annarri myndinni.

Kenneth Branagh: Þetta var eins og að kynnast nýrri fjölskyldu, ég var aðkomumaðurinn en mér var vel tekið þannig að andrúmsloftið var gott. Vingjarnlegt fólk. Kímnin sem einkennir bækurnar var líka ríkjandi á tökustað.

Robbie Coltrane: Ég held að allir séu afslappaðir vegna þess að við vitum nú hvað við erum að gera og við hverju má búast.

Chris Columbus: Krakkarnir voru farnir að þekkja allt sem tengist myndinni og ég vildi láta þeim líða vel. Það er mikilvægt að láta krökkunum, öllum hópnum, líða vel á tökustað.

Emma Watson: Þegar fyrsta myndin var tekin upp hafði ég aldrei leikið sem atvinnumanneskja. Þannig að ég var voðalega taugaveikluð, en núna þekki ég fólkið sem ég er að vinna með og umhverfið líka, þannig að mér líður vel og ég skemmti mér vel.

Richard Harris: Chris Columbus er dásamlegur. Hann galdrar fram það besta í börnunum. Hann er svo þolinmóður. Hann er svo skilningsríkur. Þau dýrka hann. Hann dýrkar krakka.

Daniel Radcliffe: Það er ekki allt sem sýnist í myndinni, alls staðar er eitthvað undarlegt að gerast..

Rupert Grint: Höggormar og köngulær.

Tom Felton: Quidditch.

Jason Isaacs: Mig grunar að áhorfendur hlakki til að minn tími komi.

Robbie Coltrane: Persónurnar þroskast og vináttusambönd þróast.

Chris Columbus: Tæknin er ótrúlega áhrifarík í þessari mynd.

Daniel Radcliffe: Hún er hryllilegri, hún er fyndnari, hún er fjörugri. Hún verður dásamleg.