KVIKMYND #2
HARRY POTTER OG LEYNIKLEFINN
BLAÐAMANNAFUNDUR 25.10.2002

Þann 25. október sl. var haldinn blaðamannafundur í GUILDHALL í London til þess að kynna kvikmyndina Harry Potter og leyniklefann sem verður frumsýnd í London eftir viku. Hundruðir fréttamanna hvaðanæva úr heiminum mættu á fundinn og lögðu spurningar fyrir aðstandendur myndarinnar.

Þessi mynd var tekin á fundinum:


Þarna sjást þau sem sátu fyrir svörum: f.v. Chris Columbus, Emma, Robbie Coltrane, Daniel, Rupert, Jason Isaacs (sem leikur Lucius Malfoy) og David Heyman, framleiðandi myndarinnar.

Á fundinum drógu Emma, Rupert og Daniel þann orðsróm tilbaka að þau ætli sér ekki að leika í fleiri en þremur myndum. Þau segjast munu leika í alla vega 5 myndum ef þau mega ráða.

Hér eru glefsur úr því sem þessi sjö sögðu á fundinum en enska textann tók ég héðan (thanks to BBC).

Að hvaða leyti hefur líf ykkar breyst?

DANIEL: Líf mitt hefur lítið breyst. Fólk kemur til mín og spyr mig um myndirnar. Mér finnst það „cool“ og það er frábært að fá að heyra hvað þeim finnst um þær. En ég geri líka hluti eins og venjulegir krakkar, eins og að hanga með vinunum og fara í pizzupartí.

EMMA: Ég reyni að lifa eins eðlilegu lífi og hægt er með fjölskyldu minni og vinum. Ég hugsa að mesta breytingin felist í því að svo margir þekkja mig og það er byrjað að framleiða dúkkur sem líta út eins og ég!

RUPERT: Mér finnst „cool“ að fólk þekki mig hvert sem ég fer. Samt hef ég reynt alls konar dulargervi en þau virka aldrei!

Hvað finnst ykkur um hasarsenur í kvikmyndinni?

DANIEL: Hasarsenur eru svo skemmtilegar. Í einni af bílasenunum hékk ég í alvörunni um 30 metrum fyrir ofan jörðina sem var virkilega svalt. Ég leik sjálfur í flestum áhættusenunum.

RUPERT: Áhættusenurnar eru mitt uppáhald. Þegar við vorum í bílasenunni leið mér eins og í tívolí.


Mikill hasar: Harry Potter og Ron Weasley í bílasenunni

Hvað fannst ykkur erfiðast?

DANIEL: Það var hrikalega erfitt að tala sérstaka tungumálið (Parseltongue).

EMMA: Sumt af því sem Hermione segir varð til þess að ég hugsaði: „Hvað er hún eiginlega að meina?"

RUPERT: Köngulóarsenan. Mér er í alvörunni illa við köngulær, ég er meira að segja hræddur við gúmmíköngulær.

Hvernig var að vinna með Kenneth Brannagh?

DANIEL: Mér fannst mikill heiður að fá að vinna með honum og fór næstum því hjá mér þegar ég hitti hann fyrst. Hann er svo þekktur Shakespeare-leikari, en svo reyndist hann einn vingjarnlegasti maður sem ég hef kynnst.

EMMA: Hann er ósköp eðlilegur í framkomu. Honum tókst rosalega vel að ná persónu Gilderoy Lockhart - hann er virkilega útsmoginn og hlægilegur.

RUPERT: Mér fannst hann rosalega skemmtilegur og virkilega gott að kynnast honum.

Robbie Coltrane leikur Hagrid. Hvernig var að leika aftur Hagrid?

ROBBIE: Það var stórkostlegt, vegna þess að eftir því sem bækurnar verða fleiri, kemur fleira í ljós í sambandi við Hagrid. Hann er til dæmis í fangelsi stóran hluta þessarar myndar en maður fær að skyggnast inn í fortíðina og komast að dekkri hliðum persónuleika hans.

 

Jason Isaacs

Hvað finnst ykkur um Dobby?

DANIEL: Mér finnst hann frábær og ef ég ætti hann, léti ég hann gera heimalærdóminn fyrir mig.

EMMA: Hann er svo mikið krútt.

RUPERT: Mér finnst ekkert gagn að honum.

JASON: Ég held að hann hafi fengið of stóran skammt af Hollywood-menningunni - hann varði mestu af tíma sínum í hjólhýsinu!

Ef Hermione fengi að velja á milli Harry og Ron, hvorn þeirra myndi hún velja í myndinni, og hvorn myndir þú velja í raunverulegu lífi?

EMMA (feimin): Ég get eiginlega ekki sagt um það hvorn hún myndi velja í myndinni. Hvað raunverulegt líf varðar, þá er ég miklu betri í því að skipuleggja ástarlíf annarra en mitt eigið.

Eigið þið kærustu, strákar?

DANIEL: Mér þykir vænt um að fá öll þessi aðdáendabréf en ég á enga kærustu

RUPERT: Ekki ég heldur!

Ef þið gætuð galdrað í alvörunni, hvað mynduð þið gera?

DANIEL: Ég myndi gera mig ósýnilegan til þess að losna úr vandræðaástandi og komast á rokktónleika.

EMMA: Ég fengi mér uglu vegna þess að hún er hagkvæmari í notkun en SMS-skilaboð.

RUPERT: Ég kysi bílinn sem flýgur vegna þess að hann er virkilega „cool“.

Hvernig er að fara aftur í skólann?

EMMA: Á meðan á tökunum stóð höfðum við einkakennara í þrjá til fimm tíma á dag til að missa ekkert úr. Mér fannst gaman að fara aftur í skólann og lifa eðlilegu lífi. Ég þarf að taka mikið af prófum í ár.

RUPERT: Það var ágætt. Vinir mínir komu ósköp eðlilega fram við mig en kennararnir eru sumir að sleikja sig upp við mig!

DANIEL: Ég var að byrja í nýjum skóla og hann er frábær.

Við höfum frétt að Daniel sé hrifinn af pönktónlist.

DANIEL: Ég er hrifinn af lífsskoðun pönkara og tónlist þeirra. Hljómsveitirnar sem ég hlusta á þessa dagana eru Sex Pistols, The Clash og The Stranglers.

Það hefur frést að Daniel hafi þurft að æfa mikið til að geta haft ugluna á handleggnum.

DANIEL: Það er rétt að ég þurfti að vera í góðri æfingu fyrir myndina, en helst í sambandi við klif og skylmingar.

Í fréttunum hefur heyrst að Richard Harris sé alvarlega veikur. Hvernig hefur hann það?

CHRIS: Hann er með Hodgkins-sjúkdóminn og við höfum heimsótt hann á spítalann og við vonum öll að hann hressist innan bráðar. Ég get varla sagt annað en að hann gengi frá mér ef ég réði einhvern annan í hlutverk hans! (Anna H.: Richard Harris lést þennan sama dag)

Hafðirðu áhyggjur af því að myndin yrði of hryllileg fyrir börn?

CHRIS: Ég hafði áhyggjur, já, svo ég fékk nokkra krakka í Chicago, á aldrinum sjö til þrettán ára til að horfa á hana. Þegar ég spurði hvort þeim fyndist hún hryllileg, rétti enginn þeirra upp hönd. Þau gerðu það hins vegar öll þegar ég spurði hvort þeim fyndist hún spennandi! Dóttir mín, sem er fimm ára, var heldur ekki hrædd við hana. Reyndar var 38 ára gamall vinur minn hræddari en hún! Ég tek það fram að ef þú ert hræddur við köngulær, er hún ekki við þitt hæfi.

Dobby er mun ljótari en menn bjuggust við. Hvernig varð hann til?

CHRIS: Dobby hefur átt erfitt líf í stöðugu þjónustuhlutverki, þannig að hann gæti ekki verið sætur og krúttlegur. Maður verður að falla fyrir persónuleika hans.

Hver er uppáhaldssenan þín?

DANIEL: Einvígisatriðið milli Lockhart og Snape, og ég er mest hrifinn af stórum hópatriðum.

RUPERT: Mér fannst sniglasenan best. Þeir voru í raun góðir á bragðið vegna þess að allir voru með mismunandi bragði - súkkulaði, piparmyntu, appelsínu og sítrónu!


Einvígið: uppáhaldssena Daniels Radcliffe

Hvernig tryggið þið að krakkarnir verði ekki fyrir of miklu álagi?

CHRIS: Ég sagði krökkunum að líta á lífsferil annarra leikara. Til að sjá hvað gekk ekki upp hjá þeim og sjá fólk sem vegnaði vel eins og Jodie Foster og Ron Howard. Helsta ráðið er að þegar þetta hættir að vera skemmtilegt, þegar fullorðið fólk fer að segja þeim að gera hluti sem krakkarnir vilja ekki gera - þá eiga þeir bara að hætta þessu. Það mikilvægasta í lífinu er fjölskyldan og vinirnir. Og þessir krakkar eiga öll frábæra foreldra og vita hvað þau vilja.

Þýðing: Anna Heiða Pálsdóttir (af BBC Newsround).