Um síðuna
Eldri fréttir
Bækurnar
Bók 1
Bók 2
Bók 3
Bók 4
Bók 5
Bók 6
Bók 7
Orð og nöfn
Heimavistir 
Persónur
Galdraþulur
J.K. Rowling
Ævisaga  
Myndasíða
Verðlaun
Góðverk 
BBC þáttur
Grein eftir HJ 
Viðtöl
Ádeilur
Kvikmyndir
Mynd 1
Mynd 2
Mynd 3
Mynd 4
Mynd 5
Fyrir kennara
Viltu leika?
Viðtal/Hayman
Frumsýningar
Leikarar
Daniel Radcliffe

Emma Watson

Rupert Grint
Tom Felton
Sean Biggerst.
Aðrir leikarar
Blaðam.fundur
HBO viðtal
Heimilisföng
FAN-klúbbur
„Fan-art“
„Fan-fiction“
Tagboard
Fastagestir
Afmælisdagabók
Bréf frá gestum
Gestabók
Tenglar
Íslenskir
Erlendir
Leikir
Leikir í gangi
Spider Frenzy
Broomsticks
BroomstiX
Fill It
Hogwarts
Knockturn Alley
Púsluspil 11
Púsluspil 2
Triwizard 1
Triwizard 2
Tveir leikir
Quidditch
Fleiri leikir 
Annað
Tölvupóstur

 


Síðast uppfært
2. nóvember 2003

J. K. Rowling: viðtöl 2000 - 2003

Ég hef þýtt fullt af viðtölum við Rowling. Veldu þau hér:

Ár: Lýsing:
2000-1 Viðtal við skólabörn 16. desember (af Scholastic)
2000-2 Viðtal við Netbókabúðina AMAZON.CO.UK.
2000-3 Harry Potter Webring og Alfie viðtal 8. júlí 2000
2000-4 HARRY OG ÉG - viðtal í The Times, 1. júlí 2000
2001-1 Viðtal UM AUKABÆKURNAR af Scholastic 12. mars 2001
2001-2 Rowling LIVE á AOL, svarar spurningum 24. sept. 2001
2002-1 Annað viðtal af Scholastic
2002-2 Viðtal í THE AGE 22. sept. 2002
2003-1 Viðtal við Jeremy Paxman um fimmtu bókina
2003-2 Viðtal Í BEINNI í ROYAL ALBERT HALL í júní 2003

SCHOLASTIC
VIÐTAL VIÐ SKÓLABÖRN 16/12/2000

Anna Heiða Pálsdóttir þýddi allt saman lauslega fyrir ykkur. Þetta er tekið af vef Scholastic.com.

Þann 16. október árið 2000 gátu heilu bekkirnir í Bandaríkjunum tekið þátt í viðtali við J.K. Rowling á Netinu. Þessi síða hefur að geyma spurningarnar sem hinir ýmsu nemendur lögðu fyrir Rowling (feitletraðar) og svör hennar.

KÆRAR ÞAKKIR til Tobbu fyrir að senda mér íslensku nöfnin á ýmsum hlutum sem ég þekki bara á ensku.

Töfrasprotinn velur galdramanninn, auðvitað, en hvaða töfraskepnu myndir þú velja sem sprota?

Ég veldi mér fönixfjöður og þess vegna valdi ég hana fyrir Harry!

Hvaða líki þyrfti Boggi að taka á sig til að hræða þig? Hvað myndir þú gera til að sigrast á honum?

Ég hefði Aragog, eins og Ron gerði. Ég hata köngulær.

Nú vitum við að börn víðs vegar um heiminn hafa sagt þér hvernig Harry breytti lífi þeirra, en er einhver saga sem barn hefur sagt þér sem stendur upp úr í huga þínum?

Uppáhaldssagan er um stelpu sem kom til að sjá mig á bókmenntahátíðinni í Edinborg. Þegar hún kom að borðinu þar sem ég var að gefa eiginhandaráritanir sagði hún: „Ég vil ekki hafa allt þetta fólk hérna - þetta er bókin MÍN.“ Ég skildi hana svo vel því svona líður mér varðandi uppáhaldsbækurnar mínar.

Er Voldemort skyldur Harry? Ef til vill móðurbróðir hans?

Ég get ekki annað en hlegið . . . það væri svolítið Star-Wars-legt, ekki satt?

Í fyrstu bókinni eru leynileg skilaboð á Erised speglinum. Eru einhver önnur leynileg skilaboð í bókunum sem við ættum að skyggnast eftir?

Ekki af svipuðum toga en ef þú lest bækurnar vel þá grunar þig hvað er í vændum. Og ég segi ekki meira!

Ég hef á tilfinningunni að HP bækurnar séu að verða „myrkari“. Er þetta vegna þess að Harry er að þroskast og lesendur hans verða að gera það líka?

Það er eiginlega vegna þess að Voldemort er að verða valdameiri, en, jú, líka vegna þess að nú er Harry orðinn 14 ára. Þegar maður er orðinn fjórtán fer maður að uppgötva að heimurinn er ekki öruggur og verndaður staður - alla vega ekki alltaf.

Geturðu gefið eitthvað dæmi um hlut sem hefur komið þér á óvart í skrifunum, til dæmis persónu sem þú áttir ekki von á?

Já, það kom mér mikið á óvart að Skröggur Illauga („Mad Eye Moody“) hafi komið svona út. Ég kann ágætlega við hann. Ekki bjóst ég við því.

Hvernig myndir þú lýsa sambandinu á milli Muggaheimsins og galdraheims Harrys?

Það er ekki átakalaust samband! Harry uppgötvar að lífið í galdraheiminum endurspeglar í ríkum mæli lífið í Muggaheiminum. Við erum öll mannleg. Það eru fordómar og smáborgarabragur alls staðar (því miður).

Í fjórðu bókinni, þegar Harry segir Dumbledore frá baráttu sinni við Voldemort og að Voldemort gæti snert hann eftir að hafa tekið blóð úr honum, finnst Harry eins og hann sjái brosviprur fara um andlit Dumbledores. Af hverju? Heldur Dumbledore með Voldemort þegar allt kemur til alls?

Hmmmm . . . eins og með margar aðrar spurningar sem hér eru lagðar fram, þá get ég ekki svarað þessari. En þú lest auðsjáanlega með mikilli athygli. Ég lofa því að þú kemst að þessu!

Eru einhverjar sérstakar bækur sem þú myndir mæla með fyrir aðdáendur þína á meðan þeir bíða eftir bók 5?

Fullt af þeim! Lesið E. Nesbit, Philip Pullman, Henriettu Branford, og Paul Gallico. Lesið bara! (Þetta líst mér, Önnu Heiðu, vel á! Lesið Philip Pullman: Gyllta áttavitann og Lúmska hnífinn í þýðingu minni. Rowling er hrifin af þeim bókum og segir annars staðar að Gyllti áttavitinn sem kom út 2 árum á undan fyrstu HP bókinni á Englandi hafi verið henni mikil fyrirmynd!)

Hvers vegna valdir þú Quidditch sem svo mikilvægan hluta af lífinu í Hogwartskóla?

Vegna þess að íþróttir eru mikilvægur hluti af skólalífi alls staðar. Ég er mjög léleg í íþróttum en ég gaf hetjunni minni hæfileika sem ég hefði viljað hafa. Hvern langar ekki að fljúga?

Nú ertu búin að fara út um allan heim til að kynna bækurnar. Hefur þú hitt eitthvert áhugavert fólk eða uppgötvað nýja staði sem geta haft áhrif á skrif þín í framtíðinni, eða haft önnur áhrif á þig?

Ég hef alltaf verið hrifin af ferðalögum en ég get ekki sagt að ég hafi hitt neinn sem hefur haft áhrif á Harry-bækurnar. Sjáðu til, ég lagði grunninn að þeim fyrir svo löngu síðan, löngu áður en allt þetta fór af stað.

Ef þú værir kvikskiptingur („Animagus“), hvers konar dýr vildir þú þá vera?

Ég vildi vera otur - það er uppáhaldsdýrið mitt. Mér þætti leiðinlegt ef ég endaði sem snigill eða eitthvað svoleiðis.

Af hverju fékk Harry uglu sem gæludýr en ekki eitthvert annað dýr?

Af því að uglur eru pottþétt mest „kúl“!

Hvernig komu þér í hug allir „kúl“ hlutirnir sem Harry lendir í?

Stundum detta mér bara hlutir í hug. Og stundum þarf ég að eyða svita og jafnvel blóði í að töfra fram hugmyndir. Þetta er undarlegt ferli en ég vona að ég komist aldrei að því hvernig þetta virkar. Mér líkar vel við leyndardómsfulla hluti eins og þið hafið kannski tekið eftir.

Hvernig finnst þér að kennarar eigi að nota bækurnar til kennslu (t.d. umræður, vinnublöð, ritgerðir, o.þ.h.)?

Þeir kennarar sem ég hef hitt hafa allir notað bækurnar á svo hugmyndaríkan hátt. Það er dásamlegt að sjá hvað nemendur hafa gert. Ég hafði einstaklega gaman af því að sjá hvað nemendur töldu að þeir myndu sjá í Draumaspeglinum (Erised). Mjög áhugavert!

Vinir skipta miklu máli í bókunum þínum. Hvað er að þínu mati það mikilvægasta í sambandi við vináttu?

Að taka fólki eins og það er, og trygglyndi. Það er nógu mikið af fólki í heiminum sem stendur í vegi fyrir manni. Vinur er einhver sem styður þig skilyrðislaust hvað sem á gengur.

Færðu einhvern tíma ritstíflu? Hvað gerir þú þegar það gerist?

Ég hef bara einu sinni þjáðst af alvarlegri ritstíflu, og það var þegar ég skrifaði Harry Potter og leyniklefann. Frægðaraldan vegna fyrstu bókarinnar flæddi yfir mig og hún lamaði mig gersamlega. Ég var svo hrædd um að önnur bókin uppfyllti ekki væntingar fólks, en ég sigraðist á þessu.

Áttu einhverja uppáhalds setningu eða mottó?

Draco dormiens numquam titillandus, auðvitað!.

Er einhver málsgrein úr einhverri af bókunum í sérstöku uppáhaldi hjá þér?

Þetta er erfitt val. Ég er afar hrifinn af tólfta kaflanum í Viskusteininum (um Draumaspegilinn), og ég er ákaflega stolt af endakaflanum í FEldbikarnum.

Hvernig hugsaðirðu upp töfraþulurnar? Fannstu þær bara upp eða eru þetta raunveruleg nöfn á fólki og stöðum?

Allar töfraþulurnar eru uppspuni. Ég hef hitt fólk sem fullvissar mig um að það hafi reynt þær og ég get vullvissað það um að sama skapi að þær virka alls ekki.

Hefurðu hugsað þér að skrifa bækur um aðrar persónur en Harry Potter?

Já, þegar ég verð loksins búin með allar sjö bækurnar, þá skrifa ég eitthvað annað.

Þegar þú varst lítil, dreymdi þig einhvern tíma um eða hugsaðir um Harry Potter eða einhvern sem líkist honum?

Eiginlega ekki, þótt sumar hugmyndirnar sem ég hafði sem barn (eins og að fljúga) séu í bókunum.

Það er alls konar orðrómur á kreiki um bækurnar þínar! Hefurðu séð þessar sögur og hefurðu hugsað þér að nota eitthvað af þessum hugmyndum í bókunum þínum?

Nei, ég nota ekkert af þessum hugmyndum. Í sannleika sagt þá reyni ég að forðast að lesa mest af þessu. Sumt er fyndið, annað skrýtið, og sumt hreinlega klikkað.

Við skrifum mikið í skólanum mínum. Á hvaða aldri byrjaðir þú að skrifa og fannst þér gaman að skrifa þegar þú varst lítil?

Já, ég elskaði að skrifa þegar ég var lítil. Ég skrifaði fyrstu „bókina“ mína þegar ég var sex ára, um kanínu, sem ég kallaði „Kanínan.“

Hvað finnst þér um myndina? Heldur þú að hún eyðileggi ævintýrið sem felst í bókunum?

Ef ég tryði því, þá hefði ég aldrei selt kvikmyndaréttinn!

Hvað kom þér til að skrifa? Og hvernig tókst þér eiginlega að fá fyrstu bókina gefna út?

Ég hef verið að skrifa allt frá því ég var sex ára. Það er árátta hjá mér, svo ég get ekki sagt hvaðan hvötin kom - hún hefur alltaf verið fyrir hendi. Að mér skyldi takast að fá bókina gefna út er eingöngu vegna þrautseigju minnar, því margir útgefendur höfnuðu henni!

Notaðir þú mikið bókasöfn þegar þú varst lítil?

Já, ég elskaði bókasafnið, en ég skilaði ekki alltaf bókunum á réttum tíma. Einu sinni þegar ég var í háskólanum safnaði ég vanskilasektum upp á 50 pund (7.500 kr.), en það var heilmikið fé fyrir fátækan nemanda (það kom samt ekki í veg fyrir að ég gerði það aftur)!

Hvernig kom þér til hugar hugmyndin um neðanjarðarklefann í Leyniklefanum?

Ég vissi alltaf að klefinn væri þarna. Ég veit ekki hvernig ég fékk hugmyndina fyrst; ég var bara hrifin af hugmyndinni að Slytherin hefði skilið eitthvað eftir af sjálfum sér.

Hefur þú mikið að segja í gerð Harry Potter kvikmyndarinnar?

Ég hef fengið mikið að segja um hana. Þeir hafa leyft mér að segja álit mitt!

Hvaða persóna í mannkynssögunni hefur haft mest áhrif á þig?

Hmmmmm. . . . . Nú, fyrirmyndin mín (þótt hún sé eiginlega ekki úr mannkynssögunni) var Jessica Mitford. Ég skírði dóttur mína í höfuðið á henni. Mér finnst hún fyrirmynd vegna þess að hún var hugrökk og hugsjónamanneskja - það er að segja, hún var búin þeim kostum sem ég helst vildi hafa.

Skrifaðir þú einhverja aðra bók áður en þú skrifaðir Harry Potter bækurnar?

Já, ég skrifaði (og lauk næstum við) tvær skáldsögur fyrir fullorðna og ótal margar smásögur. Ég lauk aldrei við þessar bækur því ég gerði mér grein fyrir þvi að þær voru . . . mjög lélegar.

Var ekki erfitt að velja leikarana til þess að leika persónur í kvikmyndinni?

Ég valdi þá ekki, svo það var ekkert erfitt! En mér finnst þeir stórkostlegir.

Hafa Harry Potter bækurnar verið þýddar á mörg tungumál, t.d. portúgölsku eins og töluð er í Brasilíu?

Harry-bækurnar eru fáanlegar á portúgölsku, bæði eins og töluð er í Portúgal og einnig í brasilísku útgáfunni.

Hvernig fékkstu hugmyndina að senda Harry í galdraskóla?

Hugmyndin sem ég fékk fyrst var um strák sem vissi ekki að hann væri galdramaður fyrr en hann fékk boð um að koma í galdraskóla, svo það var aldrei spurning fyrir Harry að fara neitt annað!

Hafa hinar gífurlegu vinsældir Harry Potter breytt stefnu sögunnar á einhvern hátt?

Nei, alls ekki. Fólk hefur spurt mig hvort Rita Skeeter hafi verið fundin upp í þessum tilgangi, en hún var alltaf í planinu. Ég held að ég hafi notið þess meira að skrifa um hana en ég hefði gert hefði ég ekki fyrirhitt svona marga blaðamenn!

Verða galdrakonur og galdramenn að ganga í Muggaskóla þangað til þau fara í Hogwartskóla?

Nei, þau þurfa þess ekki.

Hvers konar áhrif hefur Myrkrahöfðinginn („The Dark Lord“) á amerískar galdrakonur og -karla?

Hann hefur áhrif á alla en fyrst ætlar hann að ná yfirráðum yfir Evrópu.

Í hvaða húsi var Lily Potter og hvert var eftirnafn hennar áður en hún gifti sig?

Eftirnafnið var Evans og hún var (auðvitað) í Gryffindor.

Skrifaðir þú Harry Potter vegna þess að þú ert svo hrifin af fantasíum eða bara af því að þú fékkst þessa hugmynd?

Hið síðarnefnda. Ég er í raun og veru ekkert hrifin af fantasíubókmenntum almennt og les þær yfirleitt ekki!

Ímyndarðu þér myndir og hluti í huganum áður en þú skrifar eða teiknarðu þetta upp?

Ég dreg upp skýra mynd í huganum og reyni svo að lýsa því sem ég sé. Stundum teikna ég þetta bara í gamni, fyrir sjálfa mig!

Hvaða námsgrein kenndir þú þegar þú varst kennari?

Frönsku en ég hefði átt að kenna ensku. Ég veit ekki af hverju ég valdi frönsku í háskólanum, nema bara vegna þess að foreldrar mínir vildu það. Lærið því af mistökum mínum - gerið það sem ykkur langar til en ekki það sem foreldrar ykkar viljið að þið gerið!

Ég er sjúk í Harry Potter! Sonur minn og ég lesum þær á hverju kvöldi. Þakka þér innilega fyrir að gefa okkur þennan tíma til þess að njóta einhvers í sameiningu! Hann ætlar að vera Harry á „Halloween“ (Allraheilagramessu). Okkur langar að vita (eins og allir) hvenær næsta bók kemur út, en helst vildum við þakka þér fyrir að gefa okkur Harry!

Mér finnst dásamlegt að heyra þetta, þakka þér fyrir. Nú, fimmta bókin er á leiðinni en ég veit ekki hvenær hún verður tilbúin. Hún kemur þegar hún kemur, er það besta sem ég get sagt!

Hvernig tekst þér að skrifa svona langar bækur án þess að verða leið á því?

Æ, æ . . . þýðir það að þér leiðist að lesa þær?! Mér leiðist aldrei nokkurn tíma að skrifa. Ég gæti (og geri það oft) skrifað allan daginn og allt kvöldið.

Hefur Harry eitthvert millinafn?

Jabb, James í höfuðið á föður sínum.

Hvaðan fékkstu nafnið Harry Potter?

„Harry“ hefur alltaf verið uppáhalds-strákanafnið mitt, þannig að ef stelpan mín hefði verið strákur, þá héti hún Harry Rowling. Þá hefði ég þurft að velja annað nafn fyrir Harry í bókunum, því það væri einum of - að láta hann heita sama nafni og sonur minn. „Potter“ var eftirnafn fjölskyldu sem bjó í nágrenni við mig þegar ég var sjö ára og ég var alltaf hrifin af nafninu svo ég fékk það að láni.

Hvaða bók fannst þér skemmtilegast að skrifa?

Fangann frá Azkaban, það er engin spurning. En það þýðir ekki endilega að hún sé uppáhaldsbókin mín. Ég elska þær allar, en þótt það hljómi kannski einkennilega þá eru bækurnar tvær sem var erfiðast að skrifa, Leyniklefinn og Eldbikarinn - uppáhaldsbækurnar mínar.

Finnst þér gaman að vera rithöfundur?

Ég elska að vera rithöfundur. Ég er svo heppin að það sem mig langaði mest að gera í lífinu hafi reynst eins skemmtilegt og ég reiknaði með.

Ég er fullorðin en elska bækurnar og það kom mér á óvart hversu fyndnar þær eru. Dursley-fjölskyldan minnir mig svolítið á Monty Python-gengið! Ertu hrifin af breskum húmor?

Breskur húmor, er í uppáhaldi hjá mér. Ég elska Monty Python.

Það eru óvenju mörg nöfn sem byrja á „H“ í bókunum (Harry, Hermione, Hedwig, Hogwarts, Hagrid, Hufflepuff). Er einhver ástæða fyrir því?

Umm . . . nei!

Munt þú einhvern tíma skrifa opinbera sjálfsævisögu?

Nei, ekki held ég það. Líf mitt er ósköp óspennandi. Fólk vill ekki lesa lýsingu á því hvernig ég hreinsa kanínubúrið!

Hvað er brennukvöld (Bonfire Night)?

Góð spurning! Við Bretar höldum upp á 5. nóvember á hverju ári. Það voru launráð um að sprengja þinghúsið og sá sem stóð fyrir þessu hét Guy Fawkes (skynjarðu tengslin við Harry Potter?!), og við kveikjum í honum í plati og sendum upp flugelda til að halda upp á það að stjórnin skyldi lifa af.

Hvað vildir þú verða þegar þú varst lítil?

Rithöfundur . . . mig dreymdi alltaf um það.

Hvaða bækur lest þú í frítíma þínum?

Tonn af bókum . . . yfirleitt skáldsögur og ævisögur.

Harry Potter fyrir fullorðna, hér aftur! Er Voldemort síðasti eftirlifandi forfaðir Slytherin, eða síðasti eftirlifandi afkomandi Slytherin?

Ah, þú sást þessa villu sem ég setti inn í vissum tilgangi. Já, hann á að vera „afkomandi“. Það er búið að breyta því í seinni prentun (geymdu eintakið sem segir „forfaðir“, hún verður eflaust dýrmæt einn daginn!).

Hyggstu hafa meiri myndskreytingar seinna?

Mér er ekki vel við mikið af myndskreytingum í skáldsögum; ég vil frekar nota ímyndunaraflið um hvernig fólk á að líta úr. Þannig að svarið er: sennilega ekki.

Hvað finnst þér um þegar aðdáendur eru að skrifa um persónurnar þínar og lestu einhvern tíma þessa hluti á Netinu?

Ég hef lesið eitthvað af þvi. Mér finnst það „flatterandi“ að fólk elski persónurnar svona mikið.

Er eitthvað meira í sambandi við kettina í bókunum en virðist við fyrstu sýn? (þ.e. köttur frú Figgs, Crookshanks, McGonagall prófessor í kattarlíki, o.s.frv.)

Óóóó, önnur góð spurning. Látum okkur sjá hvernig ég get svarað þessu án þess að upplýsa of mikið . . . emm . . . nei, ég get það ekki, því miður.

Ef þú gætir verið galdramaður, hver vildir þú helst vera?

Ef ég ætti að vera ein af persónunum í bókunum vildi ég helst vera Hermione. Hún líkist mér mikið eins og ég var þegar ég var krakki (ég var ekki svona klár en ég var ennþá meira pirrandi!).

Hvenær verður kvikmyndin um Harry Potter frumsýnd?

Í nóvember 2001 hef ég heyrt!

Frk. Rowling, í grein sem ég las í „Good Housekeeping“, þá sagðir þú að Hermione hafi fengið sömu persónueinkenni og þú hafðir á hennar aldri. Hvaða aðrir hlutir höfðu áhrif á persónur eða lýsingar í bókum þínum?

Ron líkist mjög mikið elsta vini mínum, sem heitir Sean, og við vorum skólafélagar. Hann átti aldrei að verða eins og Sean, en einhvern veginn æxlaðist það þannig. Gilderoy Lockhart líkist mikið manni sem ég þekkti einu sinni en ég held að ég fari ekki nánar út í þá sálma!

Hvert er uppáhalds sælgætið þitt úr galdraheiminum?

Súkkulaðifroskar . . . mig myndi langa að safna kortunum!

Hvernig útskýrði Dursley-fjölskyldan halann á Dudley þegar þau urðu að láta fjarlægja hann á sjúkrahúsinu?

Þau fóru á einkasjúkrahús þar sem starfsfólkið kunni að halda sér saman og sögðu að varta hefði farið úr böndunum.

Hvað hefur þú mikla stjórn á öllum þeim Harry Potter vörum sem flæða yfir heimsmarkaðinn? Heldur þú að þær seljist vel?

Ef þetta er ekki vara frá Warner Bros. þá ætti nafn Harrys ekki að vera á henni, svo ég hef ekkert vald og tek enga ábyrgð á þessu! Warner Bros. fyrirtækið hefur leyft mér að hafa eitthvað að segja um söluvörur tengdar kvikmyndinni.

Er það satt að Voldemort hafi tekið blóð úr Harry með valdi, að Harry geti drepið Voldemort en Voldemort geti ekki drepið Harry?

Þetta er áhugaverð kenning en ég myndi ekki treysta henni um of!

Átt þú ennþá servíetturnar sem þú skrifaðir fyrstu bókina á?

Ég er hlæjandi . . . hvar lastu þetta? Ég skrifaði ekki á servíettur; ég skrifaði í skrifblokk. Við verðum að kæfa þennan orðróm í fæðingu áður en fólk heimtar að fá að sjá notuðu tepokana sem ég skrifaði uppkastið af fyrstu bókinni á!

Er frú Figg með alla kettina sem býr nálægt Dursley fjölskyldunni sú sama frú Arabella FIgg sem Dumbledore nefndi í lok fjórðu bókarinnar?

Athyglisgáfan þín er í lagi!

Í Harry Potter bókunum er svo mikið af fyndnum atvikum. Ert þú að eðlisfari fyndin manneskja?

Nei, eiginlega ekki. Ég hugsa að ég sé fyndnari á pappír en í raunveruleikanum; það er alger andstaða við systur mína sem er fyndinn persónuleiki en skrifar hundleiðinleg bréf!

Getur þú útskýrt ástæðuna fyrir því að Lupin breytist í varúlf, þar sem hann breyttist ekki í „the Shrieking Shack“ í Fanganum frá Azkaban, og breyttist ekki fyrr en tunglið skein á hann fyrir utan göngin? Ef hann breytist bara í varúlf í tunglskininu, af hverju hélt hann sig ekki innandyra? Var það út af galdradrykknum? Eða var tunglið ekki komið upp?

Tunglið var ekki komið upp þegar hann kom inn í „the Shrieking Shack“.

Sem höfundur, þegar þú lest bækurnar þínar, getur þú notið þess að lesa þær og fundið samkennd með Harry, eða er of erfitt að vera „hlutlaus“?

Of erfitt að vera hlutlaus. Þegar ég les bækurnar á ný, fer ég ósjálfrátt að ritskoða þær. Þetta er mjög óþægileg reynsla. En eftir því sem á líður geri ég minna af þessu - ég get núna lesið Leyniklefann nokkurn veginn afslöppuð.

Hvað eru margir nemendur í Hogwartskóla og hvað eru margir nemendur á hverju ári í hverju húsi?

Það eru um þúsund nemendur í skólanum.

Hefur þú stúderað eitthvað um jurtir og áhrif þeirra eins og gert er í Hogwartskóla eða fannstu bara upp allar þessar kennslustundir?

Mest allir galdrarnir eru uppspuni. Stundum nota ég eitthvað sem fólk hefur trúað á í gamla daga, til dæmis „Hand of Glory" sem Draco fær frá Borgin og Burkes í Leyniklefanum.

Þú sagðir að frænka Rons hafi verið fjarlægð úr fjórðu bókinni og þú þróaðir Ritu Skeeter til eftir það. Heldurðu ekki að það hefði verið skemmtilegra að halda henni? Geturðu eitthvað sagt um hvernig hún hefði orðið?

Nú, ég nota hana kannski í annarri bók svo ég vil ekki segja of mikið um hana. Ég hef aldrei áður „drepið“ persónu (í öllum skilningi þess orðs) fyrr en í Eldbikarnum, svo þetta gerði skrifin erfiðari.

Af hvaða ástæðu var öðru vísi kápa sett á bækurnar í Bandaríkjunum? Hvers vegna eru myndskreytingar í upphafi hvers kafla í þeirri útgáfu en ekki í bresku útgáfunni?

Útgefendur hafa mismunandi smekk og ég er fegin því. Það er spennandi fyrir rithöfund að sjá bækurnar sínar í ýmsum útgáfum. Ég er mjög hrifin af útlitinu á amerísku bókunum, sérstaklega kaflaskreytingunum.

Í annarri bókinni fara Harry og Ron inn á kvennaklósett og hitta McGonagall. Þeir segja henni að þeir hafi ætlað að finna Hermione en hún fer að gráta. Af hverju?

Henni varð svo mikið um það að Harry og Ron söknuðu Hermione svona mikið (eða svo hélt hún). Undir grófu yfirborðinu er McGonagall svolítið tilfinningasöm.

Hvað þýðir það að vera gamall í galdraheiminum og hvað eru Dumbledore og McGonagall gömul?

Dumbledore er 150 ára og McGonagall prófessor er kornung, eða um sjötugt. Galdrafólk lifir töluvert lengur en Muggar (Harry hefur ekki komist að því enn).

Hvernig ver galdraheimurinn Muggabanka og þannig stofnanir fyrir galdramönnum sem kunna að nýta sér töfrana til að komast inn í þá og stela verðmunum?

Nú, galdramálaráðuneytið fylgist með fólki sem notar galdra utan galdraheimsins. Þess vegna þarf maður sérstakt leyfi til þess og um leið og það er misnotað lendir maður í vandræðum (eða í Azkaban!).

Hver var staða James í Gryffindor Quidditch-liðinu? Var hann leitari eins og Harry eða eitthvað annað?

James var sóknarmaður.

Er erfitt fyrir þig að lesa yfir handritin þín? Miðað við hvað fyrsta uppkast tekur langan tíma, hvað tekur yfirlestur langan tíma? Hver aðstoðar þig við hann?

Ég vinn með ritstjórum frá útgáfunni. Mér finnst yfirlesturinn skemmtilegur en ég les mjög vandlega yfir áður en ritstjórar fá að sjá handritið, svo þá er ekki svo mikið eftir.

Ertu að skrifa allar bækurnar í einu, eins og smábúta, á meðan þú einbeitir þér helst að einni, eða ertu bara með grófa hugmynd um hvað gerist í þeim öllum?

Fyrstu fimm árin sem ég varði í að skrifa bókaflokkinn, þá gerði ég áætlun og skrifaði smábúta í hverri bók. Ég einbeiti mér að einni bók í einu, þótt ég fái stundum hugmynd um framtíðarbók og krota hana niður til að nota seinna.

Er einhver vídeó-leikur væntanlegur?

 

Ég held að það verði vídeó-leikur en ég veit ekki hvenær hann kemur út.

Heldur þú að yngri grunnskólabörn muni geta lesið næstu þrjár bækur í flokknum?

Já, ég held það. Mér finnst bækurnar henta fyrir alla eldri en átta ára. Dóttir mín sem er sjö ára hefur lesið þær allar og er ekkert hrædd - en hún er kannski hörð af sér, eins og mamma hennar!

Þegar þú ert ekki að skrifa eða lesa, hvað finnst þér skemmtilegt að gera í frítíma þínum?

Látum okkur sjá . . . þegar ég er ekki að lesa, skrifa, eða eyða tíma með dóttur minni, þá er ekki mikill tími eftir, en mér finnst skemmtilegast að ferðast.

Nú er þegar búið að gera sumar sviðsmyndirnar fyrir kvikmyndina. Finnst þér þær líkjast því sem þú sást fyrir þér þegar þú skrifaðir bókina? Fékkstu eitthvað að segja um val á tökustöðum?

Ég veit að þær líta út eins og ég hugsaði mér þær (þ.e.a.s. þær sem þegar eru komnar)!

Komdu sæl, ég var að velta fyrir mér hversu mikil áhrif Tolkien hafði á skrif þín?

Það er erfitt að segja. Ég las ekki Hobbitinn fyrr en eftir að ég skrifaði fyrstu Harry-bókina, þótt ég hafi lesið Hringadróttins-sögu þegar ég var nítján ára. Ég hugsa að fyrir utan þá augljósu staðreynd að við notum bæði þjóðsögur og goðsagnir, þá sé ekki mikið sameiginlegt með bókum okkar. Tolkien skapaði heilan goðsagnaheim en ég get ekki sagt að ég hafi gert það. Hins vegar held ég að brandararnir séu betri hjá mér.

Frk. Rowling, af skáldsögum að vera, þá er mikið um latínu í Harry Potter bókunum. Ég hef tekið eftir því að mörg, ef ekki flest, nöfnin og álagaþulurnar eru af latneskum uppruna. Hvað þurftir þú miklar rannsóknir til að gefa bókunum þennan latínu-keim.

Latínan mín er að öllu leyti sjálflærð. Mér finnst gaman að hugsa til þess að galdramenn haldi áfram að nota þetta útdauða tungumál í daglegu lífi.

Færð þú eitthvert aukahlutverk í Harry Potter kvikmyndinni?

Nei, það er af og frá. Ég þoli ekki að sjá sjálfa mig á mynd!

Ef þú gætir breytt einum hlut í öllum heiminum, hver væri hann?

Ég myndi gera hvert og eitt okkar umburðarlyndari.

Eru einhverjir hlutir sem gerast í Harry Potter bókunum dæmigerðir fyrir einhverja af fantasíum þínum í æsku?

Það að fljúga, einna helst. Og hver vildi ekki geta notað álögin „hlaupkenndir-fætur“ (Jelly-Legs Curse)?

Hvers vegna valdir þú uglur sem sendiboða í bókunum?

Uglur eru samkvæmt hefðinni hluti af galdraheiminum og ég kann vel við þær.

Við þökkum J.K. Rowling fyrir samveruna í dag. Viltu gefa okkur eitthvert heillaráð að lokum?

Lesið sem allra mest! (Og það þarf ekki endilega að vera Harry Potter!).