2. júlí 2000

Velkominn aftur, Potter!
Grein eftir Helen M. Jerome
- Anna Heiða þýddi lauslega


Næstum jafnstundis og Barry Cunningham hitti J. K. Rowling í fyrsta skipti árið 1996 var þessi áður óbirti rithöfundur að tala um hvað hún vildi gera næst. Og næst og næst. Cunningham, sem er yfirritstjóri hjá Bloomsbury útgáfufyrirtækinu í London, hafði nýlega samþykkt að gefa út frumraun Rowlings - óvenju langa barnabók um upprennandi galdramann. „Á okkar fyrsta fundi,“ segir hann, „áður en við höfðum lokið forréttinum, áttum við samtal af þeim toga sem maður minnist mörgum árum seinna.“

„Hvað finnst þér um heilan bókaflokk?“ spurði Rowling Cunningham.

„Þegar áður óbirtur höfundur segir svona við ritstjóra,“ segir hann nú, „geta runnið á hann tvær grímur.“

Cunningham benti henni á að fyrsta bókin væri ekki einu sinni komin út en Rowling svaraði að hún hefði sjö bækur í huga. „Henni var auðsjáanlega mikið niðri fyrir,“ segir hann. „Og það sem sannfærði mig um að hún væri á réttri braut var að hún vissi allt um framhaldsbækurnar, hún vissi hvað Harry myndi gera á hverju ári lífs síns þar til hann lyki skólanum.“

Þessi flókna hugsun stendur að baki því sem er orðið að stærsta útgáfumáli árþúsundaskiptanna. Galdramaður Rowlings, Harry Potter, og hinn fullskapaði heimur hans hafa á tæpum þremur árum orðið heimsþekktir og þeir hafa brotist í gegnum hverja hindrunina á fætur annarri.

Ein stutt dæmisaga
Lítill drengur, sem var staddur á neðanjarðarbrautarstöð í London á laugardagseftirmiðdegi fyrir skömmu, sagði við bróður sinn: „Sjáðu, þetta er Harry Potter“ þegar hann sá lesanda (mig) áratugum eldri en hann með eina af bókunum í hendi sér. Við eyddum næstu fimm mínútunum í að ræða hvor væri betri, fyrsta eða önnur bókin. Nokkru seinna reyndi ég að rifja upp hvenær ég hefði síðast átt bókmenntalegar umræður við ókunnuga í neðanjarðarlestinni, hvað þá af yngri kynslóðinni. Svarið var aldrei.

Velgengni Rowlings hefur gert fólk sem aldrei les bækur að Harry-aðdáendum og HP-bækur hafa trónað í efstu sætunum á metsölulistum New York Times, Wall Street Journal og USA Today. Tímaritið Forbes Magazine, sem árlega birtir lista yfir 100 tekjuhæstu stjörnur ársins, setur Joanne Kathleen Rowling (sem verður 35 ára í júlí) í 24. sætið, mitt á milli Michael Jordan og Cher, með tekjur upp á 40 milljón bandaríkjadala (2,8 milljarðar ISK). Bækur hennar seldust í þrjátíu milljónum eintaka á heimsvísu og það er búið að þýða þær á 35 tungumál. Franskir nemendur og japanskar konur geta ekki fengið nóg að litla galdrakarlinum, sem enginn vissi af fyrr en 1997. Og í heimi þar sem málsókn er orðin að stöðutákni hefur Rowling tryggt sér hana líka.

„Helsti kostur hennar er að hún fer ekki offörum í persónulýsingum,“ segir Stephen Fry, sem er þekktur leikari, rithöfundur og skemmtikraftur, sem fékk það hlutverk að lesa fyrstu bókina þegar breska útgáfan kom út á hljóðbók. Fry lagði sig allan fram við að kynnast textanum. „Ég verð að viðurkenna að ég las bókina fyrst til að undirbúa upplesturinn,“ segir hann. „Svo ég hóf lesturinn með því sjónarmiði að sjá hvernig persónurnar ættu að hljóma. Þegar ég var kominn á þriðju blaðsíðu var ég búinn að steingleyma því og skemmti mér alltof vel við lesturinn.“

Fjórða bókin í bókaflokknum, Harry Potter and the Goblet of Fire (Harry Potter og eldbikarinn), verður gefin út beggja vegna Atlantshafsins þann 8. júlí og er þegar komin í efstu sæti metsölulista með fyrirframpöntunum. Hún verður sennilega ein umkomumesta bókin sem gefin hefur verið út. Ekki barnabók, takið eftir því, heldur bók yfirhöfuð.

Hvernig stendur á því?

Í fyrsta lagi hefur Rowling svo sannarlega notið þess að bókamarkaðurinn er orðinn að heimsmarkaði. Steve Frazier, framkvæmdastjóri hjá Amazon.co.uk, segir vinsældirnar m.a. að þakka jákvæðri lesendagagnrýni á vefsíðu þeirra auk þess hve auðvelt er að nálgast bækurnar á Netinu. „Ég held að Harry Potter sé ekki fyrsta bókin sem gerir það gott á Netinu,“ segir Frazier, „heldur sú mest áberandi og þrautseigasta.“

En það er ekki aðalatriðið. Jamie Jauncey, barnabókahöfundur og formaður nefndarinnar sem úthlutar barnabókaverðlaunum skoska listasjóðsins, heldur að bækurnar hefðu getað verið skrifaðar hvenær sem er á síðustu sextíu árum, vegna hins tímalausa þema um baráttu góðs og ills. Þar að auki sýnir hún hina sívinsælu andstöðu gegn fullorðnum, að stilla Hogwart-börnunum upp gegn hugmyndasnauðum umheiminum. „Hún gerði eins og Roald Dahl,“ segir Jauncey. Á sama hátt og höfundur Fantastic Mr. Fox og Jóa og risaferskjunnar, gefur Rowling aldrei í skrifum sínum í skyn að hún sé fullorðin manneskja að tala niður til barna. „Hún fer í spor barnanna um leið og hún skrifar,“ segir hann. En það sem er mikilvægast: „Sagan springur út á blaðsíðunni með ógnarkrafti ímyndunaraflsins.“

Það er þetta sem heyrist ítrekað hvarvetna. „Svo hugmyndarík.“ „Frumleg.“ „Kemur á óvart.“ „Ég hló upphátt.“ Meira að segja Kevin Casey, lögmaðurinn sem sér um mál fyrir rétti gegn Rowling, þar sem sækjandi heldur því fram að hún sé ekki eins hugmyndarík og haldið er fram (sjá t.d. umfjöllun á málaferlasíðunni), segir að fjölskylda hans elski bækurnar. „Eruð þið búin að lesa þær?“ spyr hann. „Þær eru frábærar.“

Fyrstu þrjár bækurnar segja sögu 10 ára gamals munaðarleysingja, Harry Potter, sem býr hjá ættingjum sínum - hundleiðinlegum og sjálfumglöðum Muggum (þ.e. ekki-galdramönnum) - Dursley-fjölskyldunni, þar til hann fær að vita að hann sé galdramaður og er sendur í Hogwarts galdraskólann. Harry verður árinu eldri með hverri bók og upplifir alls konar ævinrýri með vinum sínum, bókaorminum Hermione Grainger og hinum hugumstóra Ron Weasley, á meðan þau nema galdralistir. Ótalmargir lesendur uppgötva að bókaflokkurinn, með sitt einfaldlega yfirbragð, býr yfir ótrúlega mörgum földum smáatriðum og flókinni persónusköpun - ásamt togstreitunni á milli góðs og ills og myrkurs og hugvits, og hraðri atburðarás - er hreint og beint ávanabindandi. Gavin Wallage, sem er bókmenntaráðunautur skoska listaráðsins, minnist þess þegar ein af bókunum kom út með blindraletri: „(Rowling) talaði við öll börnin,“ sagði hann, og náði góðu sambandi við þau. „Ég held að hún eigi mjög auðvelt með að skilja hvernig hugmyndaflug þeirra virkar.“

UPPHAF
Eins og svo mörg önnur stjörnuskot („overnight successes“) er saga Rowling þyrnum stráð. Ef hún væri ekki svona ákveðin að eðlisfari og hefði ekki svona gott eyra fyrir óvenjulegum nöfnum - eins og „Hogwarts“ og „Muggum“ - þá ynni hún sennilega enn í við afleysingar á skrifstofu eða kenndi frönsku; kannski skrifaði hún sögur annað slagið en þær fengju aðeins tvær manneskjur að heyra: dóttir hennar, Jessica, sem nú er sex ára, og systir hennar Di, þrjátíu og þriggja ára. Náðargáfa Rowlings og heppni hennar, ásamt hvatningu og hugmyndaauðgi lítils hóps fólks í London og Edinborg, urðu til þess að Harry Potter töfraði á endanum allan heiminn til að draga fram vasaljósin sín og lesa undir sænginni (eins og Harry gerir gjarnan sjálfur).

Christopher Little, sem er umboðsmaður margra vel þekktra rithöfunda, t.d. Simon Singh (Fermat's Enigma) og Janet Geelson (The Arcanum), var fyrsta manneskjan utan vina- og fjölskylduhóps Rowling sem gerði sér grein fyrir hæfileikum hennar, enda þótt hann hefði aldrei áður komið nálægt barnabókum. Eins og henni einni er lagið sendi Rowling Little fyrstu kaflana af Harry Potter og viskusteininum árið 1995 af því að henni líkaði nafn hans. Vélritað handritið var eitt af mörgum í stórum bunka á skrifborði Little en hann fær tugi þeirra í hverri viku.

Hann las handritið með hraði og innan þriggja daga hafði hann ákveðið að gerast umboðsmaður hennar; hún var svo hlessa að hún las svar hans átta sinnum yfir. Little hafði rætt við fulltrúa nýju barnabókadeildarinnar hjá Bloomsbury's á bókasýningunni í Frankfurt 1995 og vissi að fyrirtækið væri á höttunum eftir einhverju einstöku. „Og Harry Potter var sannarlega frábrugðinn,“ segir hann. Óvenjuleg og löng bók. Flestar barnabækur eru innan við 40 þúsund orð; Harry Potter og viskusteinninn var a.m.k. 65 þúsund orð. Cunningham, aðalritstjóri barnabóka hjá Bloomsbury, sá handritið þegar það kom frá Little í júní 1996. „Þarna var þetta,“ segir hann, „heill heimur þar sem allt gekk upp og allt virkaði, heimur sem þú gætir gengið inn í eins og barn og gleymt þér í honum.“

Cunningham þurfti að láta Rowling and Harry töfra samstarfsmenn sína upp úr skónum, svo hann lét handritið ganga til Rosamund de la Hey, sem er yfir markaðsdeild barnabóka.

Hún var að sama skapi heilluð. „Ég hló upphátt og vakti alla nóttina við lesturinn,“ segir hún. Næsta dag eyddu hún og annar starfsmaður öllum eftirmiðdeginum í að ljósrita handritið og troða Smarties inn í það og binda borða utan um hvert og eitt. Þessir pakkar voru afhentir forsvarsmönnum fyrirtækisins en stuðningur þeirra var nauðsynlegur til að kaupa bókina. Þeir voru líka heillaðir og Cunningham gekk frá samningum næsta dag.

Það olli Rowling erfiðleikum í sambandi við næsta handrit að þótt hún hefði samið við Bloomsbury var hún næstum auralaus. Til allrar hamingju hlaut hún styrk frá skoska listaráðinu (tæpa milljón íslenskar) árið 1997 en ráðið telur barnabækur standa til jafns við fullorðinsbækur. (Umsókn Rowlings fékk óvenju mörg meðmæli að sögn Wallace: A, A, A-, B+, A-.)

Í millitíðinni var ýmislegt varðandi bókina rætt meðal ritstjóra Bloomsbury. Átti hún að vera svona löng? Átti að myndskreyta hana? Hún var mjög lítið stytt á endanum en Cunningham hafði í upphafi ráðgert að fylgja hefðinni um myndskreytingar.

„En Joanne fannst frá upphafi - og ég var sammála eftir að hafa rætt málið við hana - að allir vildu ímynda sér sinn eigin Harry,“ segir hann. Þau ræddu einnig kápuskreytinguna. Hvorugt þeirra vildi fantasíuskreytingu eins og um fullorðins bók væri að ræða svo þau völdu barnabókarkápu. Það er sérstakt að hvert land hefur sína eigin kápuskreytingu. Uppáhaldskápa Rowlings er sú hollenska sem sýnir ekki andlit Harrys. Í Bretlandi var gerð sérstök „fullorðinskápa“ til að veita lesendum af eldri kynslóðinni eins konar leynd.

Þegar bókin kom á bandaríska markaðinn sló hún fyrst almennilega í gegn og allt fárið fór af stað. Fyrstu helgina eftir að HP3 (Harry Potter og fanginn frá Azkaban) kom út í Bretlandi seldust til dæmis 20 þúsund eintök af henni til Bandaríkjanna á Netinu og á fyrstu 2 vikunum eftir að hún kom út í Bandaríkjunum seldust 500 þúsund eintök. Alls hafa nú um 20 milljón HP bækur selst í Bandaríkjunum - næstum 70% af alheimssölunni. Little segir að þessar ofurvinsældir hafi komið öllum á óvart. „Ég vissi að hún yrði vinsæl,“ segir hann nú, „en ekki svona vinsæl. Ég meina, það hefur aldrei verið neitt sem kemst í líkingu við þetta.“

JAPANSKA SAGAN
Þegar eiginmaður japanska þýðandands Yuko Matsuoka lést á jóladag 1997 erfði hún litla útgáfufyrirtækið hans, Say-zan-sha. Hún ákvað að halda útgáfunni gangandi eftir að Harry Potter birtist umheiminum. Þó að enska sé ekki hennar fyrsta mál las Matsuoka fyrstu bók Rowling á einni nóttu. „Það fór skjálftahrollur um mig alla,“ segir hún. „Og ég sagði við sjálfa mig: „Hér er eitthvað sem ég hef beðið eftir. Hér er eitthvað sem hefur beðið mín! Þetta eru örlögin!“

Sem þýðandi langaði Matsuoka að miðla þeirri tilfinningu sem hún fékk þegar hún las bókina fyrst svo hún breytti eins litlu og hægt var. Það tók hana 14 mánuði að þýða hana og hún hlær að sumum bresku orðunum sem hún þurtfti að glíma við, eins og „knickerbocker glory,“ „stoat sandwich,“ „galloping gorgons,“ „a load of old tosh“ og „codswallop.“ En þar með var aðeins hálf sagan sögð: Hugsið ykkur að þurfa að útskýra enska skólakerfið eða að greina á milli álaga og seiða og annarra töfraorða fyrir japanska lesendahópinn. Matsuoka gerði þó ekki eins og bandarískir starfsbræður hennar, hún breytti ekki titlinum (sem vísar til efnisins sem samkvæmt gömlum sögnum breytir grunnmálmum í gull). „Viskusteinninn er mjög vel þekktur meðal japanskra unnenda vísindaskáldsagna,“ segir hún. „Svo ég hélt þessari dularfullu ímynd í þýðingunni: Kenja-no-ishi.“ Harry Potter nýtur einna mestra vinsælda í Japan á meðal kvenna á milli tvítugs og þrítugs um allt land sem hafa tekið ástfóstri við unga galdramanninn. Símtöl og bréf flæða á hverjum degi til Matsuoka og flest þeirra grátbiðja um aðra bókina. Matsuoka er hrifin af því hvernig sögurnar endurspegla siðferðislegt gildi ástar, vináttu og hugrekkis án þess að prédika.

FRANSKA SAGAN
Útgefandi Harry Potter bókanna í Frakklandi er Gallimard Jeunesse. Þegar aðalritstjóri fyrirtækisins, Christine Baker, fékk fyrstu bókina í hendurnar, segir hún að þó svo að hún vissi að þetta væri einstaklega góð frumraun höfundar með góðu innihaldi, hafi hún enn verið í vafa um hvort Harry Potter gæti töfrað franska lesendur. Þá sannfærðu dætur Christine móður sína um það. Næstum hálf milljón eintaka af fyrstu þremur bókunum hafa selst í Frakklandi. Og nú er öll fjölskylda Christine, þar á meðal eiginmaður hennar, heilluð af bókunum. Mathilde, sem er fjórtán ára, kann hvert smáatriði utanað, og Henriette, sem er átján ára, skammast sín ekkert fyrir að taka þátt í heitum umræðum um Harry Potter við félaga sína í matartímanum í skólanum. (Þýðandi Roald Dahl-bókanna, Jean-Francois Menard, þýddi bókina á tveimur mánuðum. Honum fannst erfiðast að útskýra breska heimavistarskólann og reglurnar þar. Gallimard breytti titlinum á fyrstu bókinni í Harry Potter a l'ecole de Sorciers - Harry Potter í galdraskóla. Franskir fjölmiðlar voru lengi að taka við sér en þegar Time magazine hafði verið með forsíðugrein um kappann tóku þeir kipp.) Með hverri bókinni hefur sagan orðið myrkari og flóknari, en það virðist einmitt vera það sem lesendur vænta og óska eftir.

FYRSTU SPORIN
Þegar Fry las fyrstu bókina á hljóðbók í 1998 vissi hann ekki mikið um hana: „Brjálæðið var ekki farið af stað og Rowling var ekki enn orðin að umræðuefni í öllum matarboðum, og bækurnar höfðu heldur ekki komið út í Bandaríkjunum. En þegar ég hitti hana aftur árið 1999 var hún orðin þekktari en Bítlarnir, en virtist ekki hafa ofmetnast.“ Að hans mati hefur það sem Rowling upplifði í Bandaríkjunum - allt frá því að hitta fyrir konu sem klæddi sig eins og feita konan á málverkinu í Hogwarts að stórum barnahópum klæddum eins og Harry, og loks „þetta óða trúarfólk sem mótmælti bókunum“ - komið henni mjög á óvart. „En hún kemur mér fyrir augu eins og einhver sem er með báða fætur á jörðinni.“

Það virðist vera óralangt síðan Rowling og systir hennar, Di, voru í galdraleik með æskuvinum sínum, Ian og Vikki Potter á áttunda áratugnum. Potter man eftir því að Rowling hafi sagt hinum börnunum sögur og hann er hæstánægður yfir því að hafa kannski átt þátt í sköpun sögunnar - sem hann les nú fyrir börnin sín, fjögurra og átta ára.

Næstum tveimur áratugum eftir þessi bernskubrek lagði Rowling fyrstu drögin að sögu unga galdramannsins á Nicolson's kaffihúsinu í Edinborg. Hún ók Jessicu í kerru sinni þangað og skrifaði á meðan hún sötraði expresso-kaffi. Annar eigenda Nicolson's, Dougal McBride, segir að Rowling hafi þekkt allt starfsfólkið með nafni, þar sem nýbúið var að opna staðinn og hún hafi verið einn af fyrstu fastagestunum.

Nú hefur kaffihúsinu verið breytt í veitingahús en aðdáendur - sérstaklega frá Bandaríkjunum - koma á staðinn til að votta virðingu sína, og þeir hafa spurt hvort ekki standi til að segja upp skjöld eða breyta nafninu í Potter's. „En við vorum hérna á undan Harry Potter,“ segir McBride, og bætir því við að Rowling, sem kemur nú stundum á staðinn til að fá sér málsverð, virðist ekkert hafa breyst frá því hún kom þangað fyrst. „Hún er jafn vingjarnleg og jarðbundin og hún hefur ávallt verið.“

Höfundurinn hefur auðsjáanlega heillað samstarfsmenn, aðdáendur og lesendur jöfnum höndum. Skoti sem fór með börnin sín á Edinborgarhátíðina segir: „Hún er mjög grönn og aðlaðandi - kynþokkafull - og ég heyrði aðra feður segja að þeir hafi ekki séð eftir því að koma. Hún virðist ákveðin en svolítið uppstökk og trekkt; hún hlýtur að brenna miklu.“

Fry segir kankvíslega að Rowling sé „yngri en ég hélt, og laglegri líka. Af hverju gerir maður sér alltaf í hugarlund að kvenkyns rithöfundar séu nærsýnir, siginaxla, með blekslettur út um allt og afkáralegar?“ (Ég, þýðandinn, AH, brýt reglurnar, kasta mér hér inn og tek það fram að mér finnst þetta mjög karlrembuleg yfirlýsing. . .)

Hvað tekur næst við? Búist er við að málsóknin gegn Rowling sem fór af stað í mars, þar sem Rowling, Scholastic Inc., Time Warner Entertainment Co., Mattel Inc. og Hasbro Inc. er stefnt fyrir að hafa fótum troðið einkaleyfi rithöfundarins Nancy Stouffer frá Camp Hill í Pennsylvaníu muni verða meira í fréttunum. En sennilega ber hæst nýjasta innlegg Rowling í bókaflokkinn um Harry Potter.

Og hvað svo? Rosamund de la Hey segir að líklega muni Rowling leggja barnabókaskrif á hilluna með tímanum þar sem margar hugmyndir hennar falli ekki inn í þann flokk. Rosamund segir: „Það mun taka mjög á tilfinningar Rowlings að ljúka bókaflokknum og þess vegna er ómögulegt að andmæla henni um hvað gerist næst.“

Hingað til hefur enginn gert það. Eins og sagt var um Elvis, þá geta þrjátíu milljón aðdáendur ekki haft á röngu að standa.

Þessa grein þýddi ég lauslega af Bookmagazine.com